Bara Bara Beri Beri

Bara flokkurinn

Bara flokkurinn Baraflokkurinn er sennilega ein þekktasta sveit Akureyringa frá níunda áratugnum, stofnuð seinni hluta árs 1980. Að sögn þeirra félaga var hún stofnuð af tómum leiðindum.

Baraflokkinn skipuðu söngvarinn Ásgeir Jónsson, bassaleikarinn Baldvin H. Baldvinsson, bræðurnir Þór Freysson, gítar, og Jón Arnar Freysson, hljómborð og loks trommarinn Árni Henriksson. Sveitin þótti meira tónleikaband en ballhljómsveit og var tónlist þeirra félaga gjarnan líkt við tónlist David Bowie. Þeir áttu því kannski ekki í mörg hús að venda norðan heiða.

Að áeggjan Bubba Morthens, þegar bandinu var boðið að hita upp á tónleikum Utangarðsmanna, sendu þeir demó af efni sínu til útgáfufyrirtækisins Steinars. Útgáfan munstraði sveitina á samning og kom fyrsta plata þeirra félaga út sumarið 1981. Þar var á ferð sex laga tólftommu plata sem vakti á þeim athygli enda var henni fylgt fast eftir með tónleikahaldi um land allt. Inn á milli spilamennskunnar var æft af kappi.

Í miðjum klíðum urðu trommaraskipti og í stað Árna settist við settið 14 ára gamall Sigfús Óttarsson, sem starfað hafði með líttþekktu unglingarokkbandi sem nefndi sig ½ 7. Með þessa liðskipan hljóðritaði Baraflokkurinn sína fyrstu LP plötu, Lizt, fyrir páskana 1982 og kom hún út þá um sumarið. Þar vakti lagið I don't like your style almenna athygli á sveitinni og er eitt þeirra laga sem haldið hefur nafni hennar á lofti. Á þessari plötu er líka að finna lagið Motion, sem er einnig á plötunni Rokk í Reykjavík, en þar hafði lagið verið gefið út sem Moving up to a motion.

Næsta plata sveitarinnar var unnin í nágrenni London á vormánuðum 1983 og fékk heitið Gas. Platan er af mörgum talin besta plata flokksins, heilsteypt og rökrétt framhald af því sem þeir höfðu verið að gera. Þessi plata reyndist þó svanasöngur hljómsveitarinnar, ef frá er talin endurkoma þeirra þegar ráðist var í gerð safnplötunnar Zahír, sem hefur að geyma helstu lög Baraflokksins og gefin var út árið 2000. Síðan þá hefur hljómsveitin komið saman nokkrum sinnum, t.d við opnum Hofs á Akureyri 2010 og á 150 ára afmæli Akureyrarbæjar 2012.
Við þau tækifæri kom Baraflokkurinn einnig fram á Græna Hattinum á Akureyri
Read more

News

More news